Stefnt er að því að fulltrúar stjórnmálaflokkanna hittist á fundi í kvöld klukkan 20 þar sem ræða á áfram hugsanlega sameiginlega yfirlýsingu, sáttargjörð, um framhald Icesave-málsins og mögulegar viðræður við Breta og Hollendinga.
Leiðtogar flokkanna hittust tvívegis í síðustu viku og var stefnt að frekari fundahöldum um helgina eða í þessari viku. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í síðustu viku að reiknað væri með því að niðurstaða fáist í fyrri hluta þessarar viku hvort möguleiki opnist á að setjast að samningaborðinu með Bretum og Hollendingum.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á laugardag að ef formlegar viðræður hefjast milli Íslands annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar um Icesave verði m.a. rætt um vaxtakostnað.