Hæstiréttur staðfesti fyrir helgi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að sakborningar í mansalsmáli víki úr dómssal á meðan meint fórnarlamb ber vitni gegn þeim. Einn dómari Hæstaréttar skilaði sératkvæði þar sem hann komst að gagnstæðri niðurstöðu.
Sakborningum verður þrátt fyrir þetta gert kleift að fylgjast með skýrslugjöfinni utan þingsalar og koma spurningum að á meðan hún fer fram.
Fórnarlambið er 19 ára stúlka frá Litháen. Hún mun hafa verið svipt frelsi og neydd til að stunda vændi í heimalandi sínu áður en hún var send til Íslands í október sl. Stúlkan var handtekin við komuna til landsins og hefur verið í forsjá yfirvalda síðan þá. Samkvæmt áliti læknis er andlegt ástand stúlkunnar slæmt.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði. Í því segir að ekki hafi verið sýnt fram á að nærvera sakborninga geti stúlkunni sérstaklega til óþæginda auk þess sem ekki verð séð með hvaða hætti þeir ættu að geta truflað framburð hennar um lífsskilyrði sín í Litháen.
Jón Steinar bendir á að þessi skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að heimilt sé að víkja sakborningum úr þingsal á meðan skýrslutaka fer fram. „Fer að mínum dómi fjarri að sýnt hafi verið að þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu,“" segir í sératkvæði Jóns Steinars.
Réttargæslumaður stúlkunnar fram fram á kröfuna. Færði hann þau rök að það geti orðið stúlkunni þungbært, jafnvel ofviða, að sitja andspænis sex sakborningum, sem ákærðir séu fyrir mansal, og gefa skýrslu. Nærvera sakborninga geti haft veruleg áhrif á framburð hennar.