Alvarlegt rörasprengjuslys

Af vettvangi. Sprengjusérfræðingar komu til Hveragerðis í kvöld til að …
Af vettvangi. Sprengjusérfræðingar komu til Hveragerðis í kvöld til að aftengja rörasprengju sem eftir var í bílskúrnum. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á níunda tímanum nú undir kvöld til þess að flytja alvarlega slasaðan mann á slysa- og bráðadeildina í Fossvogi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi barst henni tilkynning um alvarlegt flugeldaslys í Hveragerði kl. 20:17 í kvöld. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru strax á vettvang.

Hinn slasaði, sem er á þrítugsaldri, var fluttur með sjúkrabíl að þyrlu Landhelgisgæslunnar á Bláfjallaafleggjaranum og flutti þyrlan hann áfram á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Að sögn lögreglu varð maðurinn fyrir þegar heimatilbúin rörasprengja sprakk.

Á þessari stundu er ekki annað vitað en að ástand hins slasaða er mjög alvarlegt.

Annar maður var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til aðhlynningar. Hann er talin ómeiddur.

Lögregla er á vettvangi og rannsakar hann sem og tildrög slyssins. Lögreglan er einnig að ganga úr skugga um að ekki séu fleiri virkar sprengjur á svæðinu. Lögreglan getur ekki veitt nánari upplýsingar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert