Ískönnunarflug Landhelgisgæslunnar í gærkvöld leiddi í ljós að hafís er 8,5 sjómílur frá landi út af Barðsvík og Straumnesi á Hornströndum, þar sem hafísinn er næst landi.
Er það talsvert nær landi en á laugadag þegar Eir, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór síðast í ískönnunarflug, en þá var ís 12,5 sjómílur frá landi þar sem hann var styðst frá landi.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni ætti hafísinn þar sem hann er nú ekki að hafa áhrif á helstu siglingaleiðir og ekki talin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af ísnum, enda virtist hann reka frá landi þegar flogið var yfir í gærkvöld.
Hins vegar ítrekar starfsmaður Landhelgisgæslunnar að mikilvægt sé að fara með gát og fylgjast með tilkynningum t.d. frá gæslunni og Veðurstofunni.