Nanna Briem er eiginkona eins af björgunarsveitamönnunum sem héldu til Haítí í síðustu viku. Hún segir það spennandi að vita af manni sínum úti og hún einfaldlega leyfi sér ekki að hugsa það versta. Von er á sveitinni heim á fimmtudagskvöldið.
Meðlimir björgunarsveitarinnar hafa vakið athygli fyrir störf sín ytra en fjallað hefur verið um sveitina í mörgum af helstu fjölmiðlum ytra.
Utanríkisráðuneytið skipuleggur nú heimkomu íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar, sem unnið hefur þrekvirki við erfiðar aðstæður á Haítí í kjölfar jarðskjálftans þar fyrir tæpri viku. Þota frá Iceland Express hefur verið tekin á leigu og er áætlað er að hún fari héðan á miðvikudagsmorgun og snúi aftur á fimmtudagskvöld, 21. janúar.
Ferðin til Port-au-Prince verður nýtt til að flytja hjálparstarfsmenn og neyðargögn frá Rauða krossinum.
34 eru í alþjóðabjörgunarsveitinni og hefur hún meðferðis allt að 10 tonnum af búnaði. Ef aukarými er í vélinni á heimleið, er áætlað að ferðin verði nýtt fyrir aðra, hjálparstarfmenn eða erlenda ríkisborgara, líkt og í síðustu viku, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Íslenska alþjóðasveitin mun í dag vinna í rústum Montana hótelsins í Port au Prince, höfuðborgar Haiti. Á hótelinu dvöldust starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sem voru við störf á Haiti og fjölskyldur þeirra þegar skjálftinn reið yfir. Talið er að um 200 manns séu enn grafnir í rústum hótelsins en litlar líkur eru taldar á að einhver sé enn á lífi. Munu þeir vinna með sömu bandarísku sveitinni og undanfarna daga, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
„Samkvæmt upplýsingum frá sveitinni var það samhljóma ákvörðun félaga hennar að bjóða sig fram í þetta erfiða og tilfinningaþrungna verkefni, þ.e. að leita að starfsfólki SÞ og fjölskyldum þeirra. Líta meðlimir sveitarinnar á þetta verkefni sem leit að sinni eigin fjölskyldu og vinum.
Í dag er síðasti vinnudagur sveitarinnar á Haiti en á morgun mun hún búa sig til heimferðar."