Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Kastljóssins, er starfandi ritstjóri í kjölfar brotthvarfs Þórhalls Gunnarssonar úr ritstjórastóli. „Ég tek við tímabundið þar til annað verður ákveðið,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is. Hann á von á því að málið muni skýrast í vikunni.
Hann segir að ákvörðun Þórhalls, sem var tilkynnt á starfsmannafundi í dag, eigi sér ekki langan aðdraganda, en Sigmar fékk að vita af þessu í gær.
„Viðbrögð mín við því að missa Þórhall út úr húsinu eru skýr. Mér finnst það algjörlega ömurlegt. Ég hefði mjög gjarnan viljað hafa hann áfram sem ritstjóra Kastljóssins og dagskrárstjóra, en hann tók þessa ákvörðun og maður verður að virða það,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is.
Sigmar segir að ákvörðun Þórhalls sé tekin í sátt við stjórn og starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þórhallur hefur stýrt Kastljósinu í rúm fjögur ár.
Þórhallur segist hætta af persónulegum ástæðum og að sögn Sigmars hefur enginn ágreiningur verið uppi um störf Þórhalls.