Umræða hefur verið á fundi borgarstjórnar í dag um sóknaráætlun Reykjavíkurborgar, sem var kynnt borgarbúum í drögum á nýlegu hugmyndaþingi og á vef Reykjavíkurborgar. Jafnframt voru lagðar fram niðurstöður Hugmyndaþings Reykjavíkur en sú vinna mun nýtast við lokafrágang sóknaráætlunar.
Fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hafi á fundinum í dag sagt að markmið með sóknaráætlun sé að móta stefnu til framtíðar. „Við viljum að Reykjavík verði ávallt í forystu hvað varðar lífsgæði borgarbúa og verði fyrsti valkostur fólks og fyrirtækja. Aðgerðirnar og tillögurnar eru unnar af breiðum hópi fólks, íbúa í Reykjavík," sagði hún m.a.
Sóknaráætlun Reykjavíkurborgar var unnin í framhaldi af umræðum í borgarstjórn og tillögu borgarstjóra, sem borgarráð samþykkti samhljóða 20. nóvember 2008. Þá var lagt til að undirbúin yrði sóknaráætlun fyrir Reykjavík vegna þeirra verkefna sem borgin stendur frammi fyrir í ljósi breytinga í efnahagsumhverfinu.
Að lokinni umræðu um sóknaráætlunina verður tekin fyrir tillaga frá Ólafi F. Magnússonar, borgarfulltrúar F-lista, um vantraust á borgarstjóra. Ólafur fékk að gera stutta athugasemd í umræðunum um sóknaráætlunina og hvatti þá borgarfulltrúa að hætta þeirri umræðu svo hægt væri að snúa sér að mikilvægari málefnum. Sagði hann, að umræðan væri málþóf sem miðaði að því að neita honum um málfrelsi.