Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 er lagt upp með þá forsendu að framkvæmdir hefjist fljótlega við nýtt álver í Helguvík og að nokkur önnur verkefni skapi störf sem leiði til þess að útsvarstekjur bæjarins hækki um 680 milljónir og að þannig verði afgangur af rekstri bæjarins 42 milljónir. Minnihlutinn í bæjarstjórn gagnrýnir þetta og segir of snemmt að reikna með tekjum af álverinu enda sé fjármögnun þess ekki tryggð.
Mikil þörf er á nýjum atvinnutækifærum á Suðurnesjum en hvergi á landinu er atvinnuleysi meira eða 13,6%. Það þýðir að um 1.500 manns eru atvinnulausir.
Ekki veitir af álverstekjum heldur af því að öðrum kosti yrði taprekstur upp á mörg hundruð milljónir. Bærinn má illa við því, m.a. í ljósi þess að skuldir nema um 14 milljörðum og skuldbindingar utan efnahags námu í fyrra um 12 milljörðum. (Þær hafa ekki verið uppreiknaðar fyrir næsta ár). Eignir nema um 24 milljörðum.
Árni Sigfússon bæjarstjóri hafnar þessari gagnrýni. Hann bendir á að Norðurál geri ráð fyrir að hefja framkvæmdir í apríl eða maí. Þá sé áætlun bæjarins um tekjur af álversframkvæmdum og öðrum verkefnum hófleg. Reiknað sé með að 60-70% starfa við þær verði til í bæjarfélaginu. „Við ætlumst til þess að þessi verkefni fari af stað á árinu og það er lífsnauðsynlegt fyrir okkar samfélag hér,“ segir hann.
Sveitarfélögin sem fengu bréf frá eftirlitsnefndinni í fyrra voru: Kópavogur, Hafnarfjörður, Álftanes, Reykjanesbær, Sandgerði, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbær, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Bolungarvík hefur verið undir sérstöku eftirlit og þurfti m.a. að hækka útsvarið upp fyrir hámarkið, með sérstakri heimild, en fjárhagur sveitarfélagsins hefur mjög vænkast með aðhaldsaðgerðum og auknum tekjum.