Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 er lagt upp með þá forsendu að framkvæmdir hefjist fljótlega við nýtt álver í Helguvík og að nokkur önnur verkefni skapi störf sem leiði til þess að útsvarstekjur bæjarins hækki um 680 milljónir og að þannig verði afgangur af rekstri bæjarins 42 milljónir. Minnihlutinn í bæjarstjórn gagnrýnir þetta og segir of snemmt að reikna með tekjum af álverinu enda sé fjármögnun þess ekki tryggð.
Mikil þörf er á nýjum atvinnutækifærum á Suðurnesjum en hvergi á landinu er atvinnuleysi meira eða 13,6%. Það þýðir að um 1.500 manns eru atvinnulausir.
Helmingur í Reykjanesbæ
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur samþykkt, er gert ráð fyrir verulega batnandi tíð og að alls muni ný verkefni skapa allt að 2.900 ný störf á Suðurnesjum. Íbúum í Reykjanesbæ muni jafnframt fjölga um 2% en þeim fækkaði um 1% í fyrra. Í áætluninni segir að mörg verkefnanna væru þegar hafin ef ekki hefðu komið til tafir af völdum bankahruns eða aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Þá er bent á að í hagvaxtarspá Seðlabankans sé gert ráð fyrir álversframkvæmdum og því eðlilegt að gert sé ráð fyrir að þær skili skatttekjum í bæjarsjóð. Miðað við forsendur í áætluninni er reiknað með að um helmingur mögulegra útsvarstekna skili sér til bæjarins, að því gefnu að öll verkefnin verði að veruleika.
Ekki veitir af álverstekjum heldur af því að öðrum kosti yrði taprekstur upp á mörg hundruð milljónir. Bærinn má illa við því, m.a. í ljósi þess að skuldir nema um 14 milljörðum og skuldbindingar utan efnahags námu í fyrra um 12 milljörðum. (Þær hafa ekki verið uppreiknaðar fyrir næsta ár). Eignir nema um 24 milljörðum.
Hvenær er fugl í hendi?
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista í bæjarstjórn, gagnrýnir þessa tekjuáætlun sjálfstæðismanna, einkum þá miklu áherslu sem lögð sé á álversframkvæmdir. Enn sé ekki búið að ganga endanlega frá fjármögnun álversins í Helguvík og þótt hann vilji og trúi að álverið muni rísa, sé of snemmt fyrir bæjarsjóð að gera ráð fyrir tekjum af því. „Okkur var sagt árið 2006 að búið væri að fjármagna álverið en það er ekki svo,“ segir hann. Minnihlutinn hafi árum saman sagt að meirihlutinn hafi með ýmsum hætti falið rekstrartap. „Nú kemur hið rétta í ljós. Menn eru að keyra hérna allt langt umfram tekjur,“ segir hann.
Árni Sigfússon bæjarstjóri hafnar þessari gagnrýni. Hann bendir á að Norðurál geri ráð fyrir að hefja framkvæmdir í apríl eða maí. Þá sé áætlun bæjarins um tekjur af álversframkvæmdum og öðrum verkefnum hófleg. Reiknað sé með að 60-70% starfa við þær verði til í bæjarfélaginu. „Við ætlumst til þess að þessi verkefni fari af stað á árinu og það er lífsnauðsynlegt fyrir okkar samfélag hér,“ segir hann.
Níu fengu sendingu
Níu sveitarfélög sem ekki hafa áður verið til skoðunar vegna fjármála sinna fengu í fyrra bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga þar sem óskað er eftir frekari upplýsingum um fjárhaginn. Þótt enginn dómur felist í því að fá slíkt bréf er víst að flestir sveitarstjórnarmenn vildu gjarnan sleppa að þurfa að svara viðlíka fyrirspurnum.
Sveitarfélögin sem fengu bréf frá eftirlitsnefndinni í fyrra voru: Kópavogur, Hafnarfjörður, Álftanes, Reykjanesbær, Sandgerði, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbær, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Bolungarvík hefur verið undir sérstöku eftirlit og þurfti m.a. að hækka útsvarið upp fyrir hámarkið, með sérstakri heimild, en fjárhagur sveitarfélagsins hefur mjög vænkast með aðhaldsaðgerðum og auknum tekjum.