Prófessor í hagfræði við Hoover stofnunina í Stanford háskóla, Melvyn Krauss, segir það ekki rétt að hollenski seðlabankinn eigi að bera hluta ábyrgðarinnar á Icesave líkt og Robert Wade, stjórnmálahagfræðingur og prófessor við London School of Economics, hélt fram í grein sem birtist í Financial Times í síðustu viku. Krauss skrifar bréf til FT um málið í dag.
Krauss fjallar í bréfi sínu um að bæði Holland og Ísland tilheyri evrópska efnahagssvæðinu (EES) og því þurfi banki ekki heimild til þess að starfa í öðru ríki innan EES. Því hafi seðlabanki Hollands ekki haft neina heimild til að koma í veg fyrir starfsemi Landsbankans í Hollandi. Það sé heimalandið sem beri ábyrgð á fjárhagslegri stöðu viðkomandi banka.