Úrslit í samkeppni um styttu af Tómasi kynnt

Vinningstillagan að styttu af Tómasi Guðmundssyni.
Vinningstillagan að styttu af Tómasi Guðmundssyni. mbl.is/RAX

Tillaga Höllu Gunnarsdóttur, myndlistarmanns, varð fyrir valinu í samkeppni um styttu af Tómasi Guðmundssyni, skáldi, sem á að setja upp í Reykjavík í maí. Mynd Höllu sýnir Tómas sitja á bekk við suðurenda Reykjavíkurtjarnar.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti árið 2008 tillögu Kjartans Magnússonar um að gerð yrði myndastytta af Tómasi Guðmundssyni og henni komið fyrir á áberandi stað í borginni.

Menningar- og ferðamálaráð ákvað að láta halda lokaða samkeppni með forvali í samræmi við samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Í júní 2009 var auglýst eftir tillögum. Þriggja manna forvalsnefnd var falið að velja þrjá myndlistarmenn úr innsendum umsóknum til þess að vinna tillögur. Urðu listamennirnir Halla Gunnarsdóttir, Magnús Tómasson og Ragnhildur Stefánsdóttir fyrir valinu.

Þeir skiluðu inn tillögum sínum í október sl. og var þriggja manna dómnefnd falið að velja úr tillögunum. Var niðurstaðan kynnt í dag. Að sögn Kjartans Magnússonar sýnir verðlaunatillagan Tómas með hágreiðslu og í fötum sem minna á fjórða áratug síðustu aldar þegar ljóðabókin Fagra veröld kom út. Tómas hefur tillt sér á bekk við suðurenda Tjarnarinnar og geta vegfarendur sest hjá honum og horft yfir vatnið.

Í dómnefnd sátu Kjartan Magnússon fyrir hönd menningar- og ferðamálaráðs, Sólveig Aðalsteinsdóttir fyrir hönd innkaupanefndar Listasafns Reykjavíkur og Bjarni Sigurbjörnsson fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Jafnframt var í dag opnuð sýning á tillögum listamannanna þriggja í Fógetastofum, Aðalstræti 10.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert