Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir að uppsögn Þórhalls Gunnarssonar hafi borið brátt að en Þórhallur hafi greint honum frá þessu í gær. Persónulegar ástæður séu á bak við uppsögnina og segir útvarpsstjóri að enginn faglegur ágreiningur liggi á bak við uppsögnina.
Starfslok Þórhalls séu í fullri vinsemd og gildar ástæður á bak við starfslok Þórhalls. Mikil vinátta ríki á milli þeirra tveggja og engan skugga hafi borið þar á.
Að sögn Páls hefur ekki verið gengið frá ráðningu nýrra starfsmanna í þau störf sem Þórhallur hefur gegnt en staðgenglar Þórhalls muni sinna þeim fyrst um sinn. Sigmar Guðmundsson mun ritstýra Kastljósi og Jóhanna Jóhannsdóttir mun stýra innlendri dagskrárgerð.