„Ég tel að það skynsamlegasta í stöðunni væri að taka málið upp í Evrópudómstólnum [...] Það er svo sannarlega engin skýr lagaleg skylda þar um. Ég byggi þetta á yfirferð yfir hagfræðileg gögn og lagatexta sem varða skuldbindingar evrópsku tilskipunarinnar.
Það fyrsta sem ber að gera er að lýsa því yfir að þetta sé deila milli Evrópuríkja sem beri að leysa fyrir evrópskum dómstóli,“ segir Jan Kregel, fyrrverandi stefnumótunarstjóri hjá Efnahags- og félagsmáladeild Sameinuðu þjóðanna (UNDESA), um Icesave-málið.
Kregel var prófessor í hagfræði við nokkra háskóla, þar á meðal hinn virta Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, en hann hefur veitt stjórnvöldum á Norðurlöndum ráðgjöf í Icesave-málinu.
Kregel segir aðspurður aðgerðir breskra og hollenskra stjórnvalda til að fá fé sitt til baka í deilunni „ólöglegar“ og að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafi ekki rétt til að senda Íslendingum reikninginn.
Deilan vekur víða athygli og eru vísbendingar um að vægi hennar í norskum stjórnmálum muni aukast á næstu vikum og mánuðum.
Sjá nánari umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.