Harður eftirskjálfti reið yfir Haítí fyrir skömmu og mældist hann um 6 stig á Richter. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu eru íslensku björgunarsveitarmennirnir allir í hvíld í búðum sínum eftir erfiðan dag. Ekki er vitað um manntjón í skjálftanum en átta dagar eru liðnir frá því jarðskjálfti upp á 7 stig reið yfir Haítí.
Upptök skjálftans nú eru í 59 km fjarlægð vestur af höfuðborg Haítí, Port-au-Prince á 9,9 km dýpi klukkan 6:03 að staðartíma en 11:03 að íslenskum tíma.
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin vann í allan gærdag í rústum Montana hótelsins í Port au Prince en á því hóteli gisti starfsfólk Sameinuðu þjóðanna ásamt fjölskyldum sínum. Unnið var til klukkan tvö í nótt, klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma en að því loknu fór sveitin í búðir þar sem hún hvílist nú.
Í dag mun sveitin pakka saman þeim búnaði sem hún tekur með heim en hluti hans verður skilinn eftir þar sem hann nýtist sem neyðaraðstoð. Meðal þess sem skilið er eftir er stór hluti búða íslensku sveitarinnar þar sem hann er í notkun sem stjórnstöð aðgerða alþjóðlega hjálparliðsins. Menn telja að húsnæði á svæðinu sé ónothæft og ótraust og því þurfi öll skipulagning og utanumhald hjálparstarfs að fara fram í tjöldum, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.