Fari svo að ekki náist samningar í Icesave-deilunni og ef Bretar og Hollendingar kysu að höfða mál vegna þess fyrir íslenskum dómstólum gæti slíkur málarekstur tekið á bilinu eitt til þrjú ár, að mati tveggja lögfræðinga sem þekkja vel til starfsemi dómstólanna.
Málið kæmist fljótt á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Það er hins vegar ekki víst að málið færi hratt í gegnum dómskerfið. Ýmislegt gæti tafið fyrir, s.s. hvort krafist yrði frávísunar en slík krafa færi örugglega fyrir Hæstarétt.
Þá myndi það tefja málið verulega ef farið yrði fram á forúrskurð frá EFTA-dómstólnum. Ekki væri heldur hægt að útiloka Hæstiréttur myndi vísa málinu að hluta eða í heild aftur heim í hérað sem enn myndi tefja meðferð málsins, eins og þeir sem þekkja til Baugsmálsins vita mætavel. Fyrri ákæran í því máli var gefin út í ágúst 2005 og málarekstri lauk í Hæstarétti í júní 2008.
Sjá nánari frétt um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.