Ólafur Ragnar í Abu Dhabi

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur á morgun lokaræðuna á Heimsþingi hreinnar orku sem haldið er í Abu Dhabi. Heimsþingið sækir fjöldi forseta, forsætisráðherra, umhverfisráðherra og orkuráðherra víða að úr veröldinni auk vísindamanna, tæknimanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi, samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu.

Á þinginu sýna um 600 fyrirtæki og stofnanir á sviði hreinnar orku nýja tækni og vörur. Útflutningsráð hefur skipulagt þátttöku íslenskra fyrirtækja og sýningaraðstöðu á þinginu.

Forseti þáði boð stjórnvalda í Abu Dhabi um að sækja þingið á heimleið sinni frá Indlandi. Þetta er í þriðja sinn sem slíkt þing er haldið en forseti átti á sínum tíma þátt í að undirbúa hið fyrsta og flutti þá ræðu við opnunina.

Forseti hefur átt viðræður við fjölda ráðamanna sem sækja þingið, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert