Hættulegt er að reyna að vera eitthvað sem maður ekki er, bendir Pål Ringholm á í pistli á norska viðskiptafréttavefnum E24. Í pistlinum fjallar Ringholm um heimsókn sína til íslensku viðskiptabankanna fyrir fimm árum.
Ringholm segir athygli hafa vakið í heimsóknum hans til íslenskra banka hversu ungir og óreyndir starfsmennirnir voru. Hann hafi vakið máls á þessu reynsluleysi bankamannanna, og var þá spurður á móti hvort ekki væri skemmtilegt að ungt fólk fengi tækifæri í fjármálastarfsemi. „Jú það er skemmtilegt. En ekki skynsamlegt,“ segist hann hafa hugsað.
„Við kaupum það!“
Rinholm gerir einnig grín að áhættusækni og útrásarþrá Íslendinganna, og segist í einni heimsókninni hafa verið látinn lofa því að láta þá vita ef eitthvað væri til sölu í Noregi - þeir myndu kaupa það!
Í lok pistilsins vekur Ringholm máls á Icesave deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga. Segist hann vona að fundin verði lausn sem sé Íslendingum ekki jafn þungbær og þeir samningar sem nú liggja fyrir.