Samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig farið verði í nýjar Icesave-viðræður, ef Bretar og Hollendingar fallast á þær, gerir ráð fyrir að sett verði á fót þriggja manna samninganefnd og til hliðar við hana nefnd fulltrúa allra flokka sem fylgist með samningaviðræðum.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að ekkert hefði verið staðfest ennþá af hálfu Breta og Hollendinga um hvort þeir væru tilbúnir til að koma að samningaborðinu. „Það hafa verið stöðug samskipti við erlenda aðila, Hollendinga, Breta, Evrópusambandið, Norðurlöndin og fleiri aðila. Það liggur fyrir að það er tregða af þeirra hálfu og þetta mál er þungt, en við erum ekki úrkula vonar um að af því geti orðið.“
Til hliðar við þessa nefnd verður nefnd sem verður skipuð fulltrúum allra flokka. Hlutverk þessarar nefndar verður að fylgjast með samningaviðræðum og vera tengiliður við flokkana.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.