Hart var deilt á fundi borgarráðs í dag um skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkur um afgreiðslu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á erindi dótturfélagsins REI um heimild til að kaupa hlutabréf í filippseysku orkufyrirtæki í nóvember árið 2007.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir því að innri endurskoðandi Reykjavíkur fjallaði um afgreiðslu stjórnar Orkuveitunnar á fundum sínum þann 2. og 3. nóvember 2007 á erindi REI þar sem óskað var eftir heimild til að kaupa hlutabréf í filippseysku ríkisreknu orkufyrirtæki fyrir 12,8 milljarða króna.
Vilhjálmur lét bóka á fundi borgarráðs, að í skýrslu endurskoðanda segi að ekki hafi verið ástunduð góð og upplýst vinnubrögð við afgreiðslu málsins. Þá veki mikla athygli að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hafi talið eðlilegt að veita svo miklum fjármunum til kaupa á hlutabréfum í erlendu ríkisreknu orkufyrirtæki sem stóð í einkavæðingarferli.
Vilhjálmur segir í bókuninni, að málið var aldrei kynnt eða afgreitt í borgarráði og borgarstjórn en þá var svonefndur 100 daga meirihluti Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks við völd.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði létu bóka á móti, að kaup á filippseyska orkufyrirtækinu PNOC-EDC hafi verið eitt af nokkrum útrásarverkefnum REI og OR sem stofnað var til í borgarstjóratíð Vilhjálms. Aðfinnslur hans nú um að verkefnið hafi verið of lítið kynnt á vettvangi OR og borgarinnar hitti hann sjálfan fyrir.