Ekkert nýtt kom fram á fundi stjórnvalda með formönnum stjórnarandstöðunnar, sem hófst í stjórnarráðinu kl. 16:30. Fundinum lauk nú rétt fyrir sex, en þar var farið yfir stöðuna í Icesave-málinu og samskipti íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, var á fundinum í fjarveru formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er staddur erlendis.
Birkir Jón segir í samtali við mbl.is að næstu skref í málinu hafi verið rædd. Engin formleg niðurstaða hafi orðið. „Ekkert annað en það að menn haldi áfram að tala saman. Það má kannski segja að það veiti ekkert af því í ljósi þess hve mikil gjá er orðin á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli,“ segir Birkir Jón.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að stjórnvöld hafi gefið stjórnarandstöðuflokkunum upplýsingar um gang mála í viðræðunum við Breta og Hollendinga.