Fjölgun aðgerða á kynfærum varasöm þróun

Vinsældir lýtaaðgerða á kynfærum fara vaxandi meðal kvenna
Vinsældir lýtaaðgerða á kynfærum fara vaxandi meðal kvenna

„Það er vaxandi eftirspurn eftir þessum aðgerðum og við kvensjúkdómalæknar höfum áhyggjur af því,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur í kvensjúkdómum.

Málþing um kynfæri kvenna var haldið á Læknadögum í gær á vegum Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna þar sem var m.a. rætt um fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna.

Að mati Ebbu Margrétar er ýmislegt varhugavert við þá þróun að æ fleiri konur sækist eftir skurðaðgerðum á kynfærum sínum í fegrunarskyni.

„Þessar aðgerðir eiga að sjálfsögðu rétt á sér í völdum tilvikum, til dæmis þar sem barmar eru of langir og meiða konur við íþróttaiðkun, þar sem annar barmurinn er síðari en hinn eða konan er sködduð eftir fæðingu. Það er sjálfsagt að laga þetta en það er líka allt annar hlutur.“

Hún segir töluvert vanta upp á að haldið sé utan um þessar aðgerðir hér á landi með miðlægri skráningu, því eins og er sé erfitt að gera sér grein fyrir umfanginu.

Kynfæraaðgerðum hefur fjölgað mjög í nágrannalöndunum, t.a.m. tvöfölduðust þær í Bretlandi á árunum 2000-2005 og hafa margir áhyggjur af þessari þróun.

„Rannsóknir hafa sýnt að konur með lélega sjálfsmynd og kynlífsímynd halda stundum að þær geti bætt það með því að fara í aðgerð á kynfærum sínum, en rannsóknir hafa líka sýnt fram á að það lagar ekki vandann.“ Auk þess segir Ebba Margrét skorta á rannsóknir á áhrifum slíkra aðgerða.

Alvarlegir fylgikvillar aðgerða

Mikið er af taugaendum og kirtlum í skapabörmunum og segir Ebba Margrét það hreinlega geta haft áhrif til hins verra í kynlífi að skera hluta þeirra burt. „Á kvennadeild Landspítalans höfum við séð alvarlega fylgikvilla, bæði sýkingar og blæðingar, í kjölfar svona aðgerða.“

Mikilvægast segir Ebba Margrét að fólk geri sér grein fyrir því að kynfæri kvenna eru mjög ólík, rétt eins og annað í sköpunarverkinu, og margt af því sem konur haldi að sé of stórt eða mikið sé hreint ekkert óeðlilegt. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert