Fjölmenni á fundi í Eyjum

Frá fundinum í kvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í …
Frá fundinum í kvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pontu. mynd/Sigurgeir

Fjölmenni er á baráttufundi í Vestmannaeyjabæ, sem haldinn er í kvöld gegn fyrningarleið í sjávarútvegi. Páley Borgþórsdóttir, bæjarfulltrúi og fundarstjóri, áætlaði þegar hún setti fundinn, að 4-500 manns væru í Höllinni. Sýnt er beint frá fundinum á vef  Eyjafrétta.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var sérstakur gestur á fundinum og flutti hann fyrsta erindið. Sagði hann að menn ætluðu ekki að láta fyrningarleiðinga yfir sig ganga og spurði hvers vegna það væri svo, að menn vildu vinna hugmyndafræðilega sigra á sjávarútveginum og gera hann að leikfang fyrir sófaspekinga og kaffihúsasérfræðinga.

Hann sagði, að áður en kvótakerfið var tekið upp hefðu verið eintóm vandamál í sjávarútveginum. „Það var mjög erfitt að stjórna efnahagsmálum á Íslandi á meðan kvótakerfið var handan við hornið," sagði Vilhjálmur. „Kvótakerfið er einn af grundvöllunum fyrir efnahagslegan stöðugleika á Íslandi."

Hann sagði að fyrir tíma kvótakerfisins hefði afkoma sjávarútvegsfyrirtækja oft verið óháð aflabrögðum og stjórnvöld hefðu stöðugt verið að fjalla um það stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og yfirvofandi rekstarstöðvun. Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja hefðu borið oftar á góma hjá ríkisstjórnum en Icesave nú.

Fundarboðendur eru Vestmannaeyjabær og félög sjómanna og útvegsmanna. Auk Vilhjálms flytja ávörp Sigurður Sveinsson, varaformaður Sjómannafélagsins Jötuns, Eyþór Harðarson, varaformaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, Friðrik Björgvinsson, umboðsmaður Félags vélstjóra- og málmtæknimanna og Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert