Mál mótmælenda þingfest

Nokkrir af sakborningunum koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.
Nokkrir af sakborningunum koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. mbl.is/RAX

Ákæru ríkissaksóknara gegn níu mótmælendum sem brutust sér leið inn í Alþingishúsið 8. desember 2008 var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Enginn ákærðu tók afstöðu til ákærunnar, en það munu þau gera þegar málið verður tekið fyrir næst, 9. febrúar nk.

Ekki voru allir sakborninga mættir til þingfestingar. Einn þeirra er staddur í útlöndum og annar úti á landi. Þeir sem mættir voru reyndu nokkrir að fela andlit sín fyrir vökulu auga fjölmiðla á meðan öðrum stóð á sama. „Það þekkja þig allir,“ sagði einn og hvatti félaga sinn til að taka niður trefil sem hann hafði vafið utan um andlitið.

Þegar inn í réttarsalinn var komið þurftu þó allir að taka höfuðföt sín og andlitsgrímur niður. Bekkurinn var þéttsetinn, hvort sem er sakborningum, félögum þeirra, fjölmiðlafólki og öðrum áhorfendum. Þinghald var stutt, ekki nema um tíu mínútur. Pétur Guðgeirsson, dómari málsins, spurði hvern og einn sakborning hvort hann vildi taka afstöðu til ákærunnar. Allir neituðu þeir.

Athygli vakti, að tveimur lögreglubílum var lagt skammt frá héraðsdómi en enga lögreglumenn var að sjá inni í húsinu. Þegar blaðamaður hélt á braut eftir þinghaldið gengu allmargir lögreglumenn út um bakdyr dómstólsins og stigu um borð í bílanna. Gera má að því skóna, að lögregla hafi verið við öllu búin, kæmi til átaka í réttarsalnum. Sakborningar voru hins vegar hinir rólegustu og þurftu lögreglumenn því ekki að sýna sig.

Mál án hliðstæðu

í frétt Morgunblaðsins frá 9. desember 2008 var sagt frá atburðunum í Alþingishúsinu. Þar sagði: „Þingfundur hófst í gær eins og hver annar fundur. Siv Friðleifsdóttir steig í pontu í þeim tilgangi að beina fyrirspurn til fjármálaráðherra en komst ekki langt því ofan af þingpöllum mátti heyra hrópað: „Drullið ykkur út!“ Karl og kona voru fjarlægð af pöllunum en héldu áfram að hrópa, m.a. að ríkisstjórnin ætti að víkja.“

Á milli tuttugu og þrjátíu manns komust inn í Alþingishúsið og ruddu þingvörðum úr vegi. Einn þingvörður þurfti að leita á slysavarðstofu eftir að hafa verið hrint á ofn þegar ruðst var upp stigaganginn og tveir lögreglumenn þurftu aðhlynningu þar sem þeir höfðu verið bitnir í hendur og bak.

Þingmönnum og starfsfólki Alþingis var mjög brugðið og á atvikið sér enga hliðstæðu. Þótt komið hafi til óeirða fyrir utan þinghúsið hafði aldrei verið ruðst inn í það með þessum hætti.

Skaðabótakröfur og viðurlög þung

Þingvörðurinn sem hrint var á ofninn tognaði á hálsi og hrygg. Hann krefst tæplega 600 þúsund króna í skaðabætur vegna árásarinnar. Einnig slösuðust lögreglumenn og hlaut einn af þeim 8% örorku vegna áverka sinna.

Mótmælendurnir eru ákærðir fyrir brot gegn 100. grein almennra hegningarlaga. Hún hljóðar svo: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“

Verði mótmælendur sakfelldir er því ljóst að þeirra bíður þung refsing. 

Á milli tuttugu og þrjátíu mótmælendur brutu sér leið inn …
Á milli tuttugu og þrjátíu mótmælendur brutu sér leið inn í Ailþingishúsið og neituðu að yfirgefa það. Níu þeirra hafa verið ákærðir vegna þess. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka