„Þessar tölur frá Íbúðalánasjóði sýna að heimilunum í landinu er að blæða út. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og ýmsar aðgerðir þá er alveg ljóst að það á eftir að taka á þessum vanda, menn eru bara að ýta honum á undan sér og til lengdar gengur það ekki, einfaldlega vegna þess að skuldarar munu missa þolinmæðina og greiðsluviljann,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Í meðfylgjandi skjali má sjá að fjöldi útprentaðra nauðungarsölubeiðna lækkaði mjög á síðustu mánuðum ársins 2008 en þá var ákveðið að fresta útsendingum nýrra nauðungarsölubeiðna fram yfir áramótin vegna efnahagshrunsins.
Þannig bárust í desember 2008 alls 16 nauðungarsölubeiðnir en þær voru 622 í janúar 2009. Línuritið í meðfylgjandi skjali sýnir greinilega aukninga á fjölda útprentaðra nauðungarsölubeiðna á árinu 2009 og greinilega topp að myndast í lok ársins. Í nóvember 2009 voru prentaðar út 117 kröfulýsingar og í desember voru þær 86.
„Miðað við þessar tölur eru ansi margir að gefast upp eða búnir að gefast upp á því kerfi sem er í dag, allavega fer greiðsluviljinn þverrandi,“ segir Guðlaugur Þór. Hann segir eftirtektarvert að sjá hversu lítið almenningur er að nýta sér þau sértæku úrræði sem í boði séu fyrir skuldara. „Það er eiginlega ekkert af þessu komið í gagnið, annað hvort vegna þess að úrræðin sjálf bjóða ekki upp á það eða að þau eru ekki nógu góð,“ segir Guðlaugur Þór og tekur fram að athyglisvert sé að eftirlitsnefndin um sértækrar skuldaðlögunar sem fylgjast eigi með framkvæmd laganna og koma með athugasemdir hafi aldrei komið saman. Þetta hafi komið fram á fundi viðskiptanefndar í gær.
Að mati Guðlaugar Þórs má ljóst vera að tillögurnar um aðferðir til niðurfellingar skulda niður að 110% af markaðsvirði húsnæðis dugi mjög fáum, einkum svokölluð greiðsluaðlögun til lausafjár og fasteignaskulda. „Í umfjöllun viðskiptanefndar kom fram, að í þeim tilfellum þar sem menn hafa fengið slíka leið samþykkt af dómstól og fengið skipaðan svokallaðan umsjónarmann til að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar, að þá hefur verið undir hælinn lagt hvernig menn hafa unnið úr þeim málum. Það kom fram hjá nefndinni að þeir sem eru að fá fyrirgreiðsluaðstoð væru frekar þeir sem, eins og það var orðið, kynnu á kerfið og gætu sett sig inn í það, og hefðu fjárhagsleg efni til þess, í stað þess að það væru þeir sem þyrftu heldur á því að halda,“ segir Guðlaugur Þór.
„Skjaldborg heimilanna er ekki utan um íslensk heimili. Og þrátt fyrir fögur fyrirheit og stórar yfirlýsingar þá sitjum við ennþá uppi með þennan vanda, hann er ekkert að fara frá okkur. Það er eftirtektarvert að almenningur virðist lítið vera að nýta sér þær sértæku aðgerðir sem boðið hefur verið upp á og það sem kannski er verst er að jafnræðis er ekki gætt. Bæði virðist það tilviljunarkennt og einhver önnur sjónarmið sem virðast ráða því en það hvort fólk þurfi á þessari fyrirgreiðslu að halda.“
Spurður hvaða úrræði hann vilji sjá bendir Guðlaugur Þór á að Sjálfstæðismenn hafi síðan sl. vor kallað eftir því að stjórnvöld tækju ákvörðun enda séu nokkrar leiðir færar. „Menn þurfa bara að horfast í augu við það hvernig staðan er og taka ákvörðun út frá því hvað menn ætli að gera. Því eins og staðan er núna þá eru menn bara að fresta vandanum og ýta honum á undan sér. Við höfum fagnað öllum þeim skrefum sem stigin hafa verið, en við höfum á sama tíma sagt að þetta dygði skammt og umfjöllun nefndarinnar staðfestir að svo er. Það þarf að taka ákvörðun um hvort og hvernig hjálpa eigi fólki til að verða sjálfbjarga, en ljóst er að það þarf mikið meiri hjálp ot sterkari vernd en nú er í boði.“
Guðlaugur Þór bendir á mikilvægi þess að útfærsluleiðir séu gegnsæjar og sanngjarnar þannig að fólk viti að hverju það gangi og geti treyst því að það fái sömu fyrirgreiðslu og aðrir, og að jafnræðis sé gætt.
Að mati Guðlaugs Þórs er eitt stærsta málið hvernig menn vinna í málefnum skuldara og ekki síst skuldugra fyrirtækja. „Mér sýnist almennt að menn séu að þróa málefnalegar reglur hvað varðar fyrirtækin. Að mínu mati er hins vegar nauðsynlegt að skoða það hvernig búið er að vinna þessa hluti frá hruni og til dagsins í dag. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því, eftir að hafa hlustað á fulltrúa bankanna sem og aðra sem að málum koma, að það hafi ekki verið gætt jafnræðis milli aðila og að það hafi ekki verið unnið eftir samræmdum reglum hvorki innan bankanna eða á milli bankanna. Þetta kemur m.a. fram í afskriftum og hvernig menn fá að hlaupa frá hlutum. Einnig kemur þetta fram í því hvernig meðferð húsaleigu er," segir Guðlaugur Þór og útskýrir að stór hluti atvinnuhúsnæðis í landinu sé nú í eigu bankanna og mikið hafi verið um leigulækkanir þar en fram hafi komið að ekki hafi verið gætt jafnræðis í þeim efnum.
„Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að þau fyrirtæki sem sýndu ráðdeild og sparsemi og tóku ekki þátt í veislunni með sama hætti og þau sem nú glíma við stærstu vandamálin sé hreinlega refsað fyrir ráðdeildina,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á að refsingin birtist í því að verið sé að afskrifa miklar skuldir fyrirtækja sem ekki hafi verið stjórnað með jafn ábyrgum hætti en ekkert hjá hinum. „Þau fyrirtæki sem fá miklar afskriftir standa þá miklu betur á eftir heldur en samkeppnisaðilinn sem fór ekki jafn geyst í góðærinu.“