Minniháttar útköll í óveðrinu

Veðrið var hálf hryssingslegt þegar einn af fossum Eimskips sigldi …
Veðrið var hálf hryssingslegt þegar einn af fossum Eimskips sigldi frá Vestmannaeyjum í dag. mbl.is/Sigurgeir

Björgunarsveitir um landið sunnan- og suðvestanvert hafa haft í ýmsu að snúast í óveðrinu sem nú gengur yfir landið. Skv. upplýsingum frá lögreglu og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu eru flest verkefnin minniháttar, s.s. að festa niður þakplötur sem hafa losnað. 

Nú í kvöld var björgunarsveitin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi kölluð út vegna hlöðu sem hafði fokið í hvassviðrinu.

Lögreglan í Vestmannaeyjum segir að veðrið sé nú að ganga niður, en þar er hins vegar mikil úrkoma. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er farið að bæta í vind fyrir norðan, en allt hefur hins vegar gengið áfallalaust fyrir sig.

Björgunarsveitin Suðurnes var m.a. kölluð út í dag vegna foks við Officeraklúbbinn á vallarsvæðinu í Keflavík. Þá var björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík verið kölluð út vegna foks í bænum. Þar  var þak að fjúka af íbúðarhúsi og þak fauk af fjárhúsi, bárujárnsstafli fór af stað og nokkur skilti í bænum.

Þá hafa björgunarsveitir einnig verið kallaðar út á höfuðborgarsvæðinu og í Mosfellsbæ hafa eltst við skjólveggi, klæðningar, vinnuskúra og vinnupalla.   Þakplötur fuku m.a. af Hótel Rangá og á Selfossi fauk þakgluggi upp. Á Akranesi glímdi björgunarsveitin við fjúkandi girðingu og fleira smálegt og björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu.

Talsvert af spýtnabraki fór af stað á Patreksfirði og ógnaði þar öryggi vegfarenda og verðmætum. Sá björgunarsveit um að fergja það sem ekki var farið af stað og tína saman afganginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka