Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað þverpólitískan samráðshóp til að fjalla um framkvæmd laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins sem samþykkt voru á Alþingi í október.
Hver stjórnmálaflokkur á einn fulltrúa í samráðshópnum, en fjöldi nefndarmanna er ekki tengdur atkvæðavægi flokka. Segir félagsmálaráðuneytið, að af því leiði að hópurinn sé samráðsvettvangur sem taki ekki stefnumarkandi ákvarðanir.
Markmið með starfi hópsins er að tryggja aðgang flokka og hópa á Alþingi að upplýsingum um þróun mála og greiða fyrir upplýstri umræðu og stefnumörkun. Í því skyni er gert ráð fyrir að hópurinn fái reglulega frá ýmsum stofnunum upplýsingar um þróun helstu kennitalna sem skipta máli í þróun skuldabyrði og greiðslugetu heimila og einstaklinga. Þá er gert ráð fyrir að samráðshópurinn geti kallað til samráðs og upplýsinga þá aðila sem hann telur mikilvæga fyrir hlutverk og markmið hópsins.
Skipað var í samráðshópinn samkvæmt tilnefningum en félags- og tryggingamálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Fulltrúar eru þessir:
Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, skipaður án tilnefningar, formaður, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar, Unnur Brá Konráðsdóttir, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Marinó G. Njálsson, tilnefndur af þingflokki Hreyfingarinnar, Guðmundur Steingrímsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins, Lilja Mósesdóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Þráinn Bertelsson, utan þingflokks.