Sígarettupakkinn kostar nú yfir 900 krónur út úr búð eftir hækkanir sem urðu um áramótin og virðist það vera mörgum hvatning til að drepa í.
Um áramót heita margir á sjálfa sig til góðra verka og nota margir þetta tækifæri til að hætta að reykja. Í ár á það við um óvenju marga, ef marka má ásóknina í Reyksímann og vefsíðuna Reyklaus.is í byrjun árs.
Þar gefa æ fleiri upp kostnað sem ástæðu fyrir því að þeir hætti að reykja að sögn Ágústu Tryggvadóttur, verkefnisstjóra Reyksímans, sem starfræktur er frá Húsavík.
Kostnaðurinn er enda mikill þegar hann er tekinn saman – einstaklingur sem reykir pakka á dag borgar þannig yfir 300 þúsund krónur árlega og reyki maki hans jafn mikið eru útgjöld fjölskyldunnar vegna reykinganna vel yfir 600 þúsund krónur árlega.
Reykingar hafa reyndar minnkað verulega undanfarin ár, ekki bara eftir síðustu hækkun. Þannig reyktu 22,4 % allra á aldrinum 18 til 69 ára árið 2000 en í lok nýliðins árs mældust reykingar 15,4% hjá sama aldurshópi. Aldrei hafa því færri reykt hérlendis en nú.