„Sjálfvirk bílaþvottastöð“ undir Eyjafjöllum

Fossar undir Eyjafjöllum virðast stundum renna upp í móti þegar …
Fossar undir Eyjafjöllum virðast stundum renna upp í móti þegar hvasst er. mbl.is/Einar Falur

Mjög hvasst er um landið sunnan- og suðvestanvert. Undir Eyjafjöllum mælist vindhraðinn á bilinu 20-25 metrar á sekúndu, en um 40-50 metrar á sek. í hviðum. Bændur undir Eyjafjöllum eru ýmsu vanir og taka lífinu með ró. Þeir segjast hafa séð það svartara.

„Ef bíllinn þinn er drullugur þá geturðu farið með hann út og þar er sjálfvirk þvottastöð,“ segir Þórarinn Ólafsson, kornbóndi í Drangshlíð, í samtali við mbl.is og hlær. Það sé stíf austanátt og rigning. 

Aðspurður segir hann lítið sem ekkert hafa fokið í hvassviðrinu. „Gæsirnar eru að fjúka til í akrinum hjá mér. Þær eru að reyna finna sér skjól,“ segir Þórarinn og bætir við: „Þetta er nú ekkert svart ennþá." Allir haldi sig innandyra við vinnu, allt hafi verið sett í skjól og menn séu lítið úti. 

Páll Magnús Pálsson, bóndi í Hvassafelli, segir í samtali við mbl.is að þessa stundina rigni á hlið. Veðrið sé hins vegar ekki mjög slæmt. „Það eru ekki byljir eins og verða hérna stundum.“ 

Sjálfvirka veðurathugunarstöðin á Steinum er rétt hjá og þar mælist vindhraðinn á bilinu 22-24 metrar á sekúndu að hans sögn. Öflugasta hviðan hafi mælst 50 metrar á sekúndu.

Veðurstofa Íslands bendir á að sjálfvirkar veðurathuganir birtist ekki á vefnum vegna bilunar í vélbúnaði. Unnið sé að viðgerð. Þetta á einnig við veðurvef mbl.is, sem fær upplýsingar frá veðurstofunni.

Vindaspá kl. 16. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Vindaspá kl. 16. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka