Alls missa 50 manns vinnuna

Úr sjónvarpssal.
Úr sjónvarpssal.

Aðalbjörn Sigurðsson, formaður Félags fréttamanna á RÚV, segir fréttamenn verulega ósátta við þann niðurskurð sem stofnunin stendur frammi fyrir. Alls muni 50 manns, þegar verktakar eru taldir með, missa vinnuna í þessari hrinu. Aðrar ríkisstofnanir hafi ekki þurft að grípa til svo mikilla uppsagna.

Aðalbjörn bendir á að ríkið hafi hirt um 10% af útvarpsgjaldinu sem nýlega var lögleitt í stað afnotagjaldanna. Starfsmenn séu eðlilega verulega ósáttir við þetta.

Niðurskurðurinn á fréttadeild væri verulegur. „Enn einu sinni er ráðist á fréttastofu Ríkisútvarpsins með blóðugum niðurskurði,“ segir hann. Fréttastofan standi eftir sködduð til faglegrar og vandaðrar umfjöllunar. „Þetta er bara fjári blóðugt að þurfa að standa í þessu í annað skiptið á rétt rúmu ári.“  segir hann.

Þá hafi laun annarra starfsmanna verið skert um 6-10%. Niðurskurður hafi ekki bitnað svona harkalega á starfsmönnum annarra ríkisstofnana. 

Félag fréttamanna sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu rétt fyrir kl. 17:

„Vegna þeirrar ákvörðunnar Alþingis að hirða tíunda hluta útvarpsgjaldsins hafa nú um fimmtíu starfsmenn Ríkisútvarpsins misst vinnuna. Sumir voru launamenn en aðrir verktakar, langflestir í fullu starfi og stór hluti vann á Fréttastofunni, bæði í Reykjavík og úti á landi. Stjórn Félags fréttamanna harmar að nú sé ráðist í þriðja sinn á stuttum tíma að Fréttastofu Ríkisútvarpsins með blóðugum niðurskurðarhnífi.

Stutt er frá því helsta tekjustofni Ríkisútvarpsins var breytt með lögum frá Alþingi úr því að vera afnotagjald sem stofnunin innheimti sjálf, yfir í að vera nefskattur sem ríkið innheimtir með öðrum sköttum. Blekið var varla þornað á hinum nýju lögum þegar Alþingi ákvað að taka hluta nefskattsins til sín. Þessi óheiðarlega framkoma löggjafasamkundunar er með ólíkindum, einkum þegar haft er í huga að á sama tíma styrkir ríkið aðra fjölmiðla um milljarða króna með niðurfellingum skulda í gegnum opinbera banka.

Ljóst er að geta Fréttastofunnar til faglegrar og vandaðrar umfjöllunar er verulega sködduð vegna vanhugsaðra ákvarðanna Alþingis og ríkisstjórnar. Sjaldan hefur þó verið meiri þörf á vönduðum og áræðanlegum fréttum en nú. Stjórn félags fréttamanna spyr hvort tilgangurinn sé að  draga svo mátt úr Fréttastofunni að hún verði ófær um að sinna lögbundnu og lýðræðislegu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu?

Ábyrgðin hvílir á herðum ríkisstjórnarinnar og Alþingis, sem nú hafa opinberað algert virðingarleysi sitt fyrir Ríkisútvarpinu, hlutverki þess, starfsfólki og eigendum. Sérhver alþingismaður ber persónulega ábyrgð á uppsögnunum,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert