Bað þingmenn og sendiherra afsökunar

Stjórnendur Spegilsins og fréttastofa Sjónvarps báðu í kvöld Sigríði Önnu Þórðardóttur sendiherra og alþingismennina Björn Val Gíslason og Skúla Helgason afsökunar á umfjöllun, sem kom fram í Speglinum og kvöldfréttum Sjónvarps í gærkvöldi.

Sagt var frá umfjöllun Ríkisútvarpsins um málið á mbl.is í gærkvöldi. 

Fram kom í upphafi Spegilsins í kvöld að í pistli Sigrúnar Davíðsdóttur í þættinum í gær hafi komið fram gagnrýni á hvernig staðið væri að sölu úr eignarsýslufélaga bankanna. Bent hafi verið á að um leið og fólki í kröggum hafi verið boðið upp á svokallaða 110% leið séu eignir, sem bankarnir taki upp í skuld, seldar oft langt undir fasteignamati. Það veki spurningar um að fyrst það þurfi á annað borð að afskrifa hluta af höfuðstóli lána þá fái þeir sem séu í kröggum ekki sömu kjör.

Í fréttinni var vikið að fasteignakaupum Skúla Helgasonar þingmanns og Sigríðar Önnu Þórðardóttur sendiherra. Fram kom í Speglinum það hefði verið ómaklegt að draga kaupendur inni í þessa umfjöllun þar sem áherslan hefði verið á starfsaðferðir bankanna. Voru þau beðin velvirðingar á því.

Þá var einnig beðist velvirðingar á því að Björn Valur Gíslason þingmaður hefði verið nefndur til sögu í máli sem hann eigi engan þátt í.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert