Evrópuár gegn fátækt

José Manuel Barroso setur Evrópuár gegn fátækt í Madrid í …
José Manuel Barroso setur Evrópuár gegn fátækt í Madrid í dag. Reuters

Evrópuráðið og Evrópusambandið hófu í gær Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun undir yfirskriftinni Stöðvum fátækt! Evrópuárinu er ætlað að vekja athygli og leggja áherslu á baráttuna gegn fátækt og félagslegri einangrun um alla álfuna og er Ísland meðal þátttakenda.

José Manuel Durao Barroso, forseti Evrópuráðsins, og José Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, hófu átakið formlega í  Madrid í dag.  Ísland tekur þátt í Evrópuárinu, og er það félags- og tryggingamálaráðuneytið sem stýrir verkefninu. Átakið hefst hér á landi í febrúar. Auglýst verður í blöðum eftir verkefnum og er vonast til þess að sem flesta taki þátt.

Nærri 80 milljónir Evrópubúa, 17% þeirra sem búa innan Evrópusambandsins, lifa undir fátæktarmörkum. Meirihluti Evrópubúa (73%) lítur á fátækt sem víðtækt vandamál í sínu landi og kalla 89% þeirra eftir bráðaaðgerðum ríkisstjórnar til að takast á við það. Þrátt fyrir að flestir líti svo á að fátækt sé fyrst og fremst vandamál hves lands fyrir sig vilja 74% einnig að ESB gegni þar mikilvægu hlutverki.

Evrópuárinu 2010 er ætlað að auka vitund fólks um orsakir og afleiðingar fátæktar; bæði almennings og þeirra sem gegna áhrifastöðum. Árinu er einnig ætlað að virkja fjölda samtaka í baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun og hvetja bæði ESB og ríkisstjórnir til að takast á við þessi vandamál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert