Fækkað um 29 stöðugildi hjá RÚV

Samtals verður fækkað um 29 föst stöðugildi hjá RÚV. Sextán með beinum uppsögnum 17 starfsmanna og 13 með öðrum hætti. Til viðbótar fækkar fólki í verktöku og tímavinnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útvarpsstjóra.

Þá kemur fram að ýmsum þáttum, bæði í útvarpi og sjónvarpi, verði lagðir af. Öðrum verði breytt og kostnaður við þá skorinn niður. Auk þess verði beinum útsendingum sem tíðkast hafi frá ýmsum viðburðum verði hætt og stórlega dregið úr kaupum á efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Tilkynningin er eftirfarandi.

„Í nýsamþykktum fjárlögum felst skerðing á rekstrarfé Ríkisútvarpsins um 420 milljónir króna á ári. Stærstur hlutinn – 357 milljónir – er vegna 10% skerðingar á tekjum fyrir almannaþjónustu og 63 milljónir vegna hækkunar  tryggingagjalds. Nú standa yfir aðgerðir til að mæta þessum niðurskurði stjórnvalda.
 
Vegna þess hversu vel rekstur RÚV stendur um þessar mundir þarf ekki að skera hann niður sem nemur allri tekjuskerðingunni  til að ná jafnvægi - heldur um 270 milljónir á ársgrundvelli, - en um 135 milljónir á yfirstandandi rekstrarári sem nú er tæplega hálfnað.
 
Óhjákvæmilegt er að skerða dagskrárþjónustu Ríkisútvarpsins verulega til að mæta þessum stjórnvaldsaðgerðum. Ýmsir þættir bæði í útvarpi og sjónvarpi verða lagðir af, - öðrum breytt og kostnaður við þá skorinn niður. Beinum útsendingum sem tíðkast hafa frá ýmsum viðburðum verður hætt og stórlega dregið úr kaupum á efni af sjálfstæðum framleiðendum.
 
Samtals verður fækkað um 29 föst stöðugildi hjá RÚV, - 16 með beinum uppsögnum  17 starfsmanna og 13 með öðrum hætti. Til viðbótar fækkar fólki í verktöku og tímavinnu.
 
Framangreindar aðgerðir koma til viðbótar miklum aðhaldsaðgerðum sem gripið var til í kjölfar hrunsins fyrir rúmu ári. Við þær aðgerðir lækkuðu rekstrarútgjöld RÚV um 16% eða um 700 milljónir króna á ársgrundvelli. Þegar áhrif þeirra aðgerða voru að fullu komin fram um mitt síðasta ár hafði taprekstri  RÚV verið snúið í hagnað. Það skýrir svo aftur að yfirstandandi sparnaðaraðgerðir þurfa ekki að ganga eins langt og niðurskurður stjórnvalda á tekjum RÚV gæfi annars tilefni til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert