Flugmenn samþykkja verkfall

mbl.is/Frikki

Flugmenn hjá Icelandair hafa samþykkt heimild til að boða verkfall, sem myndi hefjast kl. 6 morgni 4. febrúar nk. og ljúka kl. 6 að morgni 6. febrúar. Þetta eru niðurstöður rafrænnar allsherjaratkvæðagreiðslu, sem hefur staðið yfir undanfarna viku.

Einnig myndi verða boðað til verkfalls 11. febrúar. Það yrði ótímabundið verkfall.

„Þetta er verkfallsheimild, þannig að við höfum fram á miðvikudag í næstu viku til að boða þetta verkfall, svo það sé boðað með löglegum fyrirvara,“ segir Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

„Við vonumst til þess að þetta leysist áður en við þurfum að boða verkfallið,“ segir Kjartan aðspurður um stöðu mála. „Kröfurnar eru ekki miklar. Það er verið að fara fram á að færa einn frídag yfir á helgi, þannig að við fáum tvö helgarfrí í mánuði. Svo að laga skilmála í tryggingum sem við erum með nú þegar, sem hafa breyst okkur óafvitandi,“ segir hann.

Alls voru 238 á kjörskrá, þar af kusu 198. Yfirgnæfandi meirihluti eða 188 flugmenn sagði já, eða 95%. Samninganefnd FÍA við Icelandair stóð á bak við kosninguna.

Kjartan segir að þetta sé líklega fyrsta rafræna kosningin um verkfallsboðun á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka