Á meðan mörlandinn blótar þorrann af miklum móð stendur engu minni hátíð fyrir dyrum hjá þeim sem hafa taugar til Skotlands.
Stjórn Edinborgarfélagsins á Íslandi hefur síðustu daga verið upptekin við undirbúning Burnes supper, sem haldin verður annað kvöld hér á landi. þessa dagana heldur nefnilega fólk um allan heim upp á skoska arfleifð með því að minnast fæðingardags Robert Burns þjóðskálds Skota. Og þar er skoski haggisinn í nokkru aðalhlutverki.
Það vantar ekkert upp á seremóníurnar í Burnes supper veislunni sem haldin verður annað kvöld. Eggert Pálsson býður fólk velkomið með sekkjapípuleik og eftir fordrykk flytja veislugestir saman Selkirk Grace. Haggisinn er hátíðlega ávarpaður áður en hann er skorinn upp en að því loknu rísa veislugestir úr sætum og skála fyrir keppinum í ekta skosku viskýi. Viskýstaupin fara aftur á loft síðar um kvöldið þegar skálað er fyrir skáldinu, og minni kvenna er á sínum stað nema það kallast Toast to the lassies í þessu samhengi.