Eftir tölvupóstsamskipti við Jón Baldvin Hannibalsson í desember, og eftir að hafa ráðfært sig við utanríkis- og forsætisráðherra þar í landi, mun Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, hafa boðið fram þjónustu sína sem milligöngumaður og sáttasemjari í Icesave-málinu.
Leitað var eftir viðtali við Ilves í gær en í svari frá skrifstofu forsetans sagði meðal annars: „Þar sem við fengum engar fréttir frá Íslandi eftir samtalið við Jón Baldvin Hannibalsson höfum við engu við málið að bæta núna.“ Boltinn virðist því vera hjá íslenskum stjórnvöldum kjósi þau að leita eftir aðstoð Ilves.
Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Össur Skarphéðinsson að Jón Baldvin hafi komið þessum skilaboðum á framfæri við sig. „Það er ekki hörgull á öflugum og reyndum mönnum,“ segir Össur aðspurður hvort fleiri vilji miðla málum í deilunni.
Sjá nánar um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.