Unnið er að undirbúningi nýrrar kosningar í Hafnarfirði um hvort veita eigi heimild fyrir að stækka álverið í Straumsvík. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag, að hugsanlega fari kosningin fram samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin 6. mars.
Fréttablaðið segir, að gildi undirskrifta um nýja kosningu um stækkun álvers í Straumsvík hafi verið staðfest og unnið sé að undirbúningi kosningarinnar. Óformlegar viðræður hafi átt sér stað á milli rekstraraðilans, Rio Tinto Alcan, og bæjarfélagsins, en formlegra svara sé beðið.
Haft er eftir Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra, að hann hafi átt viðræður við Rannveigu Rist, forstjóra álversins, og það liggi
fyrir að álverið sé að ganga frá sínum skriflegu svörum þessa dagana. Þá hafi það verið skoðað í stjórnsýslu bæjarins að hafa það bak við eyrað hvort ekki
verði hægt að ganga til kosninga samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars.