Nýtt Ísland og Hagsmunasamtök heimilanna hvetja ráðherra í ríkisstjórn Íslands og formenn verkalýðsfélaga til að mæta á áttunda kröfufund samtakanna sem fram fer á Austurvelli á morgun. Óskað er eftir staðfestingu. Berist hún ekki munu samtökin koma við á heimilum þeirra og minna þá á fundinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Íslandi og Hagsmunasamtökum heimilanna.
Ræðumenn á fundinum á morgun verða Jóhannes Björn Lúðvíksson höfundur bókarinnar Falið vald, Atli Steinn Guðmundsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem er ungur fjölskyldufaðir sem hefur ákveðið að flytjast frá landinu með fjölskyldu sína vegna ástandsins og aðgerðarleysis stjórnvalda.
Nýtt Ísland skorar á alþingismenn, ríkisstjórn og fjármagnsstofnanir að hlutskipti fólksins verði ekki bara að erfa skuldir útrásarvíkinga og tengdra aðila. Því vilja samtökin Nýtt Ísland bjóða þeim að koma með ný úrræði og leiðréttingar fyrir skuldsettar fjölskyldur.