Ekki er líklegt að nefnd um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar takist að ljúka störfum þessum mánuði eins og að hefur verið stefnt. Nefndin var skipuð í júní á síðasta ári og var upphaflega miðað við að hún skilaði af sér fyrir 1. nóvember, en nú er miðað við 1. febrúar. Nefndin kom síðast saman í byrjun desember. Guðbjartur Hannesson er formaður nefndarinnar og segist stefna að fundi í næstu viku, en það hafi lítið upp á sig að funda í sáttanefnd um stjórn fiskveiða án útgerðarmanna.
Fulltrúar útgerðarinnar hafa aðeins mætt á þrjá fundi af fimm og sætta sig ekki við frumvarp sjávarútvegsráðherra frá 10. nóvember um stjórn fiskveiða. Þeir telja frumvarpið inngrip í störf nefndarinnar og eru einkum ósáttir við ákvæði um skötusel. Þar er reiknað með gjaldtöku fyrir úthlutun hluta aflamarks í skötusel og segja útgerðarmenn það upphaf fyrningar aflaheimilda í sjávarútvegi.
Í kynningu ráðherra á frumvarpinu var tiltekið að skötuselsákvæðið væri brýn ráðstöfun í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Útvegsmenn eiga hins vegar erfitt með að samþykkja að þessi aðgerð sé brýn. Spurður hvort ákvæðið um skötuselinn væri hluti af bráðavanda í sjávarútvegi sagði Guðbjartur það vera ráðherra að meta, ekki nefndarinnar.
Hann segir ólík sjónarmið vera innan nefndarinnar og mismunandi hagsmuni. Lögð hafi verið vinna í að skilgreina álitaefni í fiskveiðistjórnunni og síðan hafi verið ætlunin að fá Háskólann á Akureyri til að meta áhrif innköllunarleiðarinnar. Það hafi hins vegar lítinn tilgang að búa til vinnuferli án aðkomu LÍÚ.
„Án útgerðarmanna höldum við bara áfram að búa til eigin skýrslur,“ segir Guðbjartur. „Ef LÍÚ kemur ekki að borðinu verður nefndin að meta hvort vinnunni verður haldið áfram og hvort allir aðrir vilja vera með í því starfi. Stjórnvöld verða líka að meta hvort þau vilja þá koma beint inn í þessa vinnu, en kveðið er á um endurskoðun laga um fiskveiðar í stjórnarsáttmálanum.
Ég lít þannig á að við séum að fást við langtímaverkefni, að breyta útgerðartilhögun til lengri tíma. Það hefur aldrei staðið til að svipta fyrirtæki rekstrargrundvelli. Þvert á móti lögðum við upp með að tryggja varanlega afkomu þeirra og taka átti tillit til skuldastöðu greinarinnar. Í nefndinni hefur verið talað um langtímaúthlutanir á fiski, 20 ára úthlutun eða jafnvel í enn lengri tíma. Fullyrðingar um annað eru áróður. Þá er ætlunin að taka af skarið með að eignarhald í sjávarútvegi sé í raun nýtingarheimild,“ segir Guðbjartur.
„Okkur finnst lítill tilgangur í því að halda þessu starfi áfram ef fulltrúa útgerðarinnar vantar að borðinu. Starfið verður ómarkvisst og við, eins og margir fleiri í nefndinni, erum óánægðir með hversu lítið hefur gengið. Í umsögn SF um frumvarpið leggur stjórnin ríka áherslu á að frumvarpið verði lagt til hliðar og öllum ákvæðum þess verði vísað til umfjöllunar sáttanefndar sjávarútvegsráðherra. Ég sé ekki að störf nefndarinnar komist í gang meðan skötuselsfrumvarpið hangir yfir mönnum,“ segir Arnar.