Breytingar verða á 10-fréttum Sjónvarpsins vegna niðurskurðar hjá RÚV. Þær munu þó halda áfram en í breyttri mynd, þ.e. styttri og efnisminni. Helgi Seljan, fréttamaður, mun snúa til baka í Kastljósið og Brynja Þorgeirsdóttir, fréttamaður, verður lánuð þangað af fréttadeildinni. Öllum þulum Sjónvarpsins hefur verið sagt upp störfum.
Þeir fréttamenn sem hætta á fréttadeild RÚV í Reykjavík eru: Elín Hirst, Guðrún Frímannsdóttir, Borgþór Arngrímsson, Jóhanna Margrét Einarsdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson og Friðrik Páll Jónsson. Misjafnt er hvenær þau láta af störfum. Spegillinn heldur áfram en stöðugildum þar verður fækkað um eitt.
Stöðugildum á svæðisstöðvum verður fækkað um fjögur og hálft, niður í tíu og hálft. Svæðisbundnum útsendingum á Vestfjörðum og Norðurlandi og Austurlandi verður hætt. Enginn fréttamaður verður á Ísafirði, a.m.k. ekki í bili, að sögn Óðins Jónssonar, fréttastjóra RÚV. Gísli Einarsson muni sinna fréttum af Vesturlandi og Vestfjörðum auk þess sem sjónvarpstökumaður verður áfram á Ísafirði. Öðrum fréttamanninum á Austurlandi, Ásgrími Inga Ásgrímssyni, var sagt upp störfum og hið sama á við um Karl Eskil Pálsson, fréttamann á Akureyri. Ætlunin er að sérstökum fréttatíma með fréttum af landsbyggðinni verði útvarpað um allt land, annað hvort á Rás 1 eða Rás 2.