Árni Johnsen alþingismaður slapp án alvarlegra meiðsla þegar hann velti bíl sínum sunnan við Litlu kaffistofuna í gærkvöldi. Mikil hálka var á veginum og fór bíllinn sem hann ók út af og valt fimm hringi.
„Ég var á leið í bæinn og var kominn framhjá Litlu Kaffistofunni til vesturs. Þar í beygjunni er löng brekka út af veginum og þar lenti ég á augabragði í bullandi krapa með flughálku undir. Bíllinn flaut upp og lét ekki að stjórn,“ segir Árni. „Það var bíll að koma á móti mér svo ég reyndi að sveigja bílnum frá og það tókst en þá fór bíllinn út af og valt niður brekkuna.“
Árni segist hafa ætlað að hringja á sjúkrabíl en þá kom aðvífandi fólkið sem var í bílnum sem kom á móti honum. Annað þeirra var læknir sem hringdi á lögregluna og gekk úr skugga um að Árni væri heill á húfi.
„Ég reyndist ekkert brotinn en maður er svolítið barinn,“ segir Árni sem var í belti og segir það hafa munað öllu. „Það var ótrúlegt að sleppa svona vel úr þessu. Alveg magnað. Það eru alltaf englar sem fylgja manni.“
Árni var á spítalanum yfir nótt og býst við að verða útskrifaður á morgun.