Klukkan 11 í morgun voru 303 búnir að greiða atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Átta kjörstaðir opnuðu kl. 10 í morgun. Þeim verður lokað kl. 18 og verða fyrstu tölur lesnar upp hálftíma síðar.
Sigurbjörn Magnússon, formaður yfirkjörstjórnar, segir daginn hafa farið ágætlega af stað og að stemningin sé góð.
Hann bendir á að í prófkjörinu fyrir þingkosningarnar í fyrra hafi um 340 verið búnir að kjósa á sama tíma. „Miðað við þær litlu upplýsingar sem við höfum þá fer þetta ágætlega af stað.“
Alls eru 19.715 á kjörskrá. Sigurbjörn býst við því að kjörsókn verði svipuð og í prófkjörinu í fyrra, en þá voru tæplega 8.000 atkvæði greidd.
Þá hafa rúmlega 650 greitt atkvæði utan kjörfundar.
Átján eru í framboði. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri sækist ein eftir fyrsta sæti. Fimm takast hins vegar á um annað sætið.