Fréttaskýring: Skuldari vill skaðabætur

Robert Tchenguiz.
Robert Tchenguiz.

Euro Investments Overseas (EIO), sem er fyrirtæki skráð á eyjunni Tortóla, gerir 317 milljarða króna kröfu í þrotabú Kaupþings. Þetta kemur fram í kröfuskrá bankans sem birt var á lokuðu vefsvæði kröfuhafa í gær og Morgunblaðið hefur undir höndum. Heimildir Morgunblaðsins herma að eigandi EIO sé Robert Tchenguiz, sem var einn af allra stærstu skuldurum Kaupþings við fall bankans. Sjóðurinn Investec Trust hefur einnig verið tengdur við Tchenguiz, en hann er skráður á Guernsey, en sá sjóður lýsir 127 milljarða kröfu í búið.

Heildarupphæð krafna sem lýst var í þrotabú Kaupþings nemur 7.300 milljörðum króna.

Freistar skuldajöfnunar

Af þeim 317 milljörðum sem Tchenguiz lýsir í búið eru 244 milljarðar í formi skaðabótakröfu. Samkvæmt lánabók Kaupþings sem lak út á síðasta ári námu heildarskuldbindingar Tchenguiz við Kaupþing tæplega 1,4 milljörðum evra á þeim tíma.

Í kröfuskránni eru allar upphæðir birtar í íslenskum krónum, og miðast umreikningur krafna sem gerðar voru í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum við gengisskráningu hinn 22. apríl 2009. Sé skuldbinding Tchenguiz umreiknuð í evrur miðað við gengi krónunnar þann dag má sjá að skaðabótakrafan sem EIO lýsir í búið á gengi þess dags stenst nokkurn veginn á við skuld Tchenguiz við bankann, miðað við lánabókina.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Tchenguiz þarna talinn freista þess að mynda sér sterkari stöðu gagnvart bankanum. Það gerir hann í þeirri von að fá hluta skuldbindinga sinna gagnvart bankanum skuldajafnaðar á móti skaðabótakröfunni. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst eru litlar líkur á því að Tchenguiz fái kröfu sína samþykkta þegar slitastjórn tekur afstöðu til hennar. Robert Tchenguiz sat um tíma í stjórn Existu sem var stærsti hluthafi Kaupþings.

Stærstu hluthafar Kaupþings fyrir hrun bankans, Exista og Kjalar, lýsa háum kröfum í þrotabú bankans. Exista lýsir þannig alls 262 milljarða kröfu í búið. Langstærstur hluti kröfu Exista, 209 milljarðar, er vegna afleiðusamninga við bankann. Afgangurinn er í formi skaðabótakrafna. Kjalar, fjárfestinga- og eignarhaldsfélag Ólafs Ólafssonar, lýsir samtals 146 milljarða kröfum í búið.

Háar launakröfur

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, lýsir 245 milljóna króna kröfu í þrotabú bankans. Sigurður er þó ekki sá starfsmaður sem lýsir hæstu launakröfunni, heldur er það Charles Martin nokkur sem gerir það. Eftir því sem næst verður komist var Martin þessum ætlað að sjá um starfsemi sem Kaupþing ætlaði að hefja í Japan. Ekkert varð hins vegar úr þeim áætlunum, en Martin vill engu að síður fá greiddar 743 milljónir fyrir sín störf. Samtals var launakröfum upp á 1,6 milljarða lýst í þrotabú bankans. Slitastjórn hefur tekið afstöðu til þeirra allra og hafnað öllum algerlega, nema einni sem var samþykkt með breytingum. Fjárhæð kröfunnar sem var samþykkt er óveruleg.

Peter Holm, forstjóri Kaupþings í Færeyjum krefst tæplega 93 milljóna. Næstur í röðinni kemur maður að nafni Chuan Fat Charles, en hann gerir kröfu upp á 87 milljónir. Ekki tókst að afla upplýsinga um þann mann að öðru leyti en viðkomandi stundaði nám í Hong Kong. Nokkrir fyrrverandi framkvæmdastjórar Kaupþings gera kröfu í þrotabú bankans. Guðni N. Aðalsteinsson, sem fór fyrir fjárstýringu bankans krefst þannig 29 milljóna. Steingrímur Kárason, sem veitti áhættustýringarsviði bankans forstöðu, lýsir 24 milljóna kröfu í bankann. Ingólfur Helgason, sem var forstjóri bankans á Íslandi, lýsir kröfu upp á 81 milljón í þrotabúið.

Erlendir bankar stórir

Deutsche Bank lýsir hæstri samanlagðri upphæð í þrotabú Kaupþings, eða um það bil 900 milljörðum króna. Þá gerir fjárfestingabankinn Goldman Sachs kröfu á áttunda tug milljarða. Verulegur fjöldi fjárfestingasjóða, vogunarsjóða, framtakssjóða og verðbréfasjóða lýsir kröfu í þrotabú Kaupþings. Líkt og kunnugt er hafa kröfuhafar Kaupþings tekið yfir stærstan hluta Arion banka, sem áður hét Nýi Kaupþing. Þrátt fyrir að bankinn sé kominn í eigu kröfuhafa fara Kaupskil, eignarhaldsfélag bankans, með eignarhald á Arion banka fyrir hönd skilanefndar bankans. Þrátt fyrir að fjölmargir fulltrúar kröfuhafa hafi nú þegar komið til landsins og átt fundi með hugsanlegum kaupendum fyrirtækja sem bankinn hefur tekið yfir, hafa þeir enga beina aðkomu að stjórn bankans. Áður en kröfuhafar fá formlega eignir Kaupþings afhentar, þar með talinn Arion banka þarf samþykki Samkeppniseftirlits og Fjármálaeftirlitsins. Fram undan er langt ferli, og því má vænta nokkurrar biðar þar til kröfuhafar fá í raun stjórn yfir bankanum.

Seðlabanki krefst 350 milljarða

Seðlabanki Íslands lýsir rúmlega 350 milljarða kröfu í þrotabú Kaupþings. Sem kunnugt er veitti Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljón evra lán á árinu 2008 gegn veði í danska FIH-bankanum. Á því gengi sem kröfuskráin er færð á er það lán þó aðeins 84 milljarðar, og því má reikna með að Kaupþing hafi sótt talsvert af óveðtryggðum lánum til Seðlabankans.

Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta lýsir 840 milljarða kröfu í þrotabú Kaupþings.

Lífeyrissjóðir lýsa 65 milljarða kröfum í þrotabúið

Samanlagðar kröfur lífeyrissjóða sem lýst var í þrotabú Kaupþings nema tæplega 65 milljörðum króna. Athygli vekur að heildarkrafa lífeyrissjóðanna er nokkru lægri en í tilfelli Landsbankans, en þar nema heildarkröfur lífeyrissjóðanna tæplega 100 milljörðum króna. Kröfuskrá Landsbankans var birt um miðjan nóvember síðastliðinn.

Stærstu, samanlögðu kröfuna af öllum lífeyrissjóðum á Lífeyrissjóður verzlunarmanna, eða um það bil 13,5 milljarða króna. Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR, sat í stjórn Kaupþings. Gunnar féll úr formannsstóli í síðustu kosningum VR, en hann lá undir ámæli félagsmanna sinna í kjölfar þess að stjórn Kaupþings ákvað að fella niður lán til starfsmanna bankans.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru kröfur Lífeyrissjóðs starfmanna ríkisins og Lífeyrissjóða Bankastræti 7 sundurliðaðar í tvennt. Síðarnefndi aðilinn er þó rekstraraðili hins fyrrnefnda, og því er óhætt að fella þær kröfur undir sama hatt. Samanlögð krafa þessara tveggja aðila nemur rúmlega 15 milljörðum króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins nýtur ríkisábyrgðar og því mun tap sjóðsins verða bætt af ríkinu og lífeyrisþegar munu ekki finna fyrir því höggi sem hlýst af falli bankanna að óbreyttu. Samanlagðar kröfur Lífeyrissjóða Bankastræti 7 og Lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins í Landsbankann námu um 14 milljörðum.

Talið er að lífeyrissjóðirnir hafi átt um 100 milljarða af skuldabréfum á stóru bankana þrjá. Til viðbótar er talið að markaðsvirði hlutabréfa sem bankarnir áttu í Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni hafi verið um 80-90 milljarðar við fall bankanna, sé miðað við skráð gengi í Kauphöll Íslands. Því er ljóst að bankarnir áttu minnst undir hjá Glitni, en samanlagðar kröfur sjóðanna í Kaupþing og Landsbanka eru um 165 milljarðar króna. Við þetta má bæta tapi sjóðanna af falli SPRON, Straums fjárfestingabanka og Sparisjóðabankans, sem var talsvert. thg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert