Stækkun álvers í brennidepli á ný

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Golli

Fyrirhuguð Búðarhálsvirkjun er sem sniðin að þörf álversins í Straumsvík fyrir orku vegna aukinnar framleiðslugetu, sem hafinn er undirbúningur að. Um er að ræða endurnýjun innan athafnasvæðis álversins og gildandi deiliskipulags, sem á að auka afkastagetu verksmiðjunnar um 40 þúsund tonn. Framkvæmdir eru að hefjast við fyrri hluta verkefnisins sem mun standa fram á mitt næsta ár.

Þó samkomulag um raforkusöluna virðist nánast í höfn er enn óvissa um fjármögnun virkjunarinnar. Forsvarsmenn lífeyrissjóða hafa átt viðræður við Landsvirkjun um að taka að sér að fjármagna innlenda hluta kostnaðarins við virkjunina. Áhugi lífeyrissjóðanna á þessu er óbreyttur skv. upplýsingum Guðmundar Þórhallssonar, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Framkvæmdir við virkjunina hófust 2001 en var síðan frestað. „Hún er eiginlega tilbúin í útboð með mjög stuttum fyrirvara,“ segir Agnar Olsen, staðgengill forstjóra Landsvirkjunar. Ef allt gengi eftir og fjármögnun fengist ætti að vera unnt að ráðast í framkvæmdir í sumar.

Þyrfti að meta áform upp á nýtt

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri segir að skipulagsstjóra hafi verið falið að taka upp viðræður við forsvarsmenn álversins um afstöðu þeirra til málsins. „Það er ekki hægt að fara fram með kosningu eða taka málið upp nema fyrir liggi vilji álversins að halda þessu deiliskipulagi fram,“ segir hann og minnir á að það var álverið sem lagði tillöguna fyrir á sínum tíma.

Að sögn Lúðvíks er ljóst eftir samtöl við forsvarsmenn álversins að það er vilji þeirra að haldið verði við umrætt deiliskipulag.

Rio Tinto Alcan hefur hins vegar engar áætlanir uppi um stækkun álversins en forsvarsmenn þess lýsa sig reiðubúna að skoða málið ef í ljós komi að meirihluti íbúa samþykki það í nýrri kosningu. „Þetta er spennandi verkefni en það þyrfti að meta þetta upp á nýtt og skoða hvort orka er tiltæk og hver arðsemin yrði miðað við forsendur í dag,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins. Álverið hafi á hinn bóginn á engan hátt átt frumkvæði að þessu. „Við höfum ekki tekið þetta aftur upp á borðið til alvarlegrar skoðunar og munum ekki verja miklum tíma og fjármunum í að fara aftur í undirbúning nema það liggi þá fyrir að þetta sé ekki í andstöðu við vilja bæjarbúa.“

Lokasprettur

Ekki liggur þó nákvæmlega fyrir hvenær verkefnisstjórnin skilar niðurstöðum sínum. „Við erum á lokaspretti í vinnunni,“ segir hún. Búast má við að næsta skref verði framlagning frumvarps um hvernig farið verður með niðurstöður verkefnisstjórnarinnar. Fyrri áfanginn hófst 1999 og var skilað efnismikilli skýrslu í árslok 2003. ,,Krafan núna var að settur yrði rammi svo ljóst væri hvaða merkingu það hefði að virkjanakostur eða svæði fengju tiltekna einkunn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert