Euro Investments Overseas, sjóður sem er í eigu Roberts Tchenguiz, krefst skaðabótagreiðslna upp á hundruð milljarða króna úr þrotabúi Kaupþings. Þetta kemur fram í kröfuskrá Kaupþings sem birt var á lokuðu vefsvæði kröfuhafa bankans í gær.
Heildarkrafa sem sjóðurinn lýsir í þrotabúið hljóðar upp á 317 milljarða króna, en þar af eru 244 milljarðar skaðabótakrafa. Í lánabók Kaupþings sem lak út á síðasta ári kemur fram að heildarskuldbindingar Tchenguiz við bankann námu um 1,4 milljörðum evra.
Talið er að Tchenguiz lýsi skaðabótakröfunni í búið til að mynda sér sterkari stöðu gangvart bankanum, en skuldir hans hafa lítið lækkað þó svo að eignasafnið sé verðminna en áður. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ólíklegt að slitastjórn Kaupþings samþykki skaðabótakröfurnar sem um ræðir.
Sjá nánar um kröfur Tchenguiz í Kaupþing og skuldir hans í Morgunblaðinu í dag.