Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, segir ekki rétt sem fram komi á vef norska blaðsins Dagbladet, að íslensk stjórnvöld telji að Frakkland, Noregur og Þýskaland komi til greina til að miðla málum í Icesave-deilu Íslands við Breta og Hollendinga.
Aðrir norskir fjölmiðlar hafa tekið málið upp og vitna í frétt Dagbladet.
Einar Karl segist hafa rætt við norskan blaðamann í dag sem hafi óskað eftir viðtali við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Í samtali þeirra á milli, sem hafi ekki verið viðtal, hafi Einar Karl sagt við blaðamanninn að í fréttum Stöðvar 2 í kvöld hafi verið uppi vangaveltur um stöðu mála í Icesave-deilunni, og sagt að Norðmenn, Þjóðverjar eða Frakkar gætu miðlað málum
„Þetta er algjörlega út í hött,“ segir Einar Karl í samtali við mbl.is. Hann segist ekki hafa slíkar upplýsingar undir höndum.