Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hefur verið ákveðið að halda áfram framkvæmdum við endurbætur á húsnæði Hrafnistu í Reykjavík. Gagngerar endurbætur á húsnæðinu hófust á árinu 2007, en elsti hluti þess er frá 1957. Í febrúar hefjast framkvæmdir við fjórða áfanga breytinganna þegar herbergi í F-álmu verða stækkuð og endurbætt. Er áætlaður kostnaður um 300 milljónir króna.
Heildarkostnaður um einn milljarður króna
Heildarkostnaður, þegar framkvæmdum lýkur hjá Hrafnistu í Reykjavík í kringum 2013, er áætlaður rúmur einn milljarður króna, að því er segir í tilkynningu.
Þegar er lokið stækkun og endurnýjun miðrýma og herbergja í öðrum eldri álmum auk ýmsum öðrum tengdum framkvæmdum við Laugarás.
Nauðsynlegt verður að loka F-álmu þegar framkvæmdir hefjast í næsta mánuði. Þar eru nú 58 rými en verða 28 að loknum breytingum. Að verulegu leyti er um skammtímarými að ræða, þar sem fólk dvelur tímabundið. Heimilisfólki í F-álmu verður boðið að flytja sig um set innan heimilisins eða að dvelja tímabundið á öðrum Hrafnistuheimilum. Til stóð að Hrafnista tæki á leigu aðstöðu á Landakoti og flytja hluta starfseminnar þangað meðan á framkvæmdum stendur, en þess gerist ekki þörf, samkvæmt tilkynningu.
Fækkun heimilismanna og starfsfólks
Við stækkun herbergja og aðrar endurbætur undanfarin misseri hefur heimilisfólki fækkað nokkuð. Heimilismenn á Hrafnistu í Reykjavík voru um 300 þegar breytingaferlið hófst árið 2007. Að loknum breytingum á F-álmu verða heimilismenn 235, sem er fækkun um 65 einstaklinga.
Við það mun stöðugildum jafnframt fækka nokkuð, sem m.a. verður unnið að með tilfærslum í starfi, færri nýráðningum í stað þeirra sem hætta og færri framlengingum á tímabundnum ráðningarsamningum.
Framkvæmdir hjá Hrafnistu eru fjármagnaðar með ágóða af Happdrætti DAS (60%) og framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra (40%).
Hrafnista, sem hóf starfsemi 1957, er ein stærsta öldrunareining landsins með um 600 íbúa á fjórum öldrunarheimilum, samkvæmt tilkynningu. Rúmlega 900 manns starfa á Hrafnistuheimilunum.