Forsvarsmenn Indefence-hópsins ætla sér í fundaherferð um landið á næstu vikum. Herferðin verður farin í þeim tilgangi að fræða landsmenn um efni Icesave-samningsins sem liggur til grundvallar Icesave-lögunum um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir áramót. Indefence hefur barist hart gegn því að fyrirliggjandi Icesave-samningur verði samþykktur.
„Við stefnum á að bjóða landsmönnum upp á fundi víða um land. Við ætlum okkur að fara á helstu þéttbýlisstaði og bjóða almenningi upp á að spyrja okkur um samningana. Þetta verða málefnalegir fundir, þar sem fólk mun fá greinargóð svör við spurningum sínum,“ segir Ólafur Elíasson, einn forsvarsmanna Indefence-hópsins, í samtali við Morgunblaðið. Ólafur segist reikna með því að fundirnir fari allflestir fram í febrúar.