Nýr prestur stýri og beri ábyrgð á kirkjustarfinu

Selfosskirkja
Selfosskirkja mbl.is/Ómar Óskarsson

Samþykkt var á almennum safnaðarfundi á Selfossi í gær að krefjast þess af biskupi, að presti sem taka á til starfa í Selfossprestakalli verði falið að stýra og bera ábyrgð á öllu kirkjustarfi í Selfosskirkju. Ágreiningur var um tillöguna en hún samþykkt með 64 atkvæðum gegn tíu.

Þar sem fleiri en einn prestur starfa innan sömu sóknar skal, samkvæmt starfsreglum, verkaskipting fara fram undir forystu sóknarprests. Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur í Selfossprestakalli, á ekki von á öðru en svo verði áfram. Lög og starfsreglur kveði á um ábyrgð sóknarpresta og hann segist ekki skorast undan þeim skyldum. Hann beri ábyrgð á starfi sem fram fer í kirkjum prestakallsins.

Fjölmenni var á safnaðarfundinum sem var boðaður vegna nýlegrar sameiningar Selfossprestakalls og Hraungerðisprestakalls. Hart var deilt á hvernig sú sameining kom til, en hún var ákveðin á kirkjuþingi í nóvember síðastliðnum.

Árni Valdimarsson, einn fundarmanna, sagðist í samtali við Morgunblaðið þess fullviss að þorri fundarmanna hefði ekki gert sér grein fyrir því hvað var verið að samþykkja. Samkvæmt áskoruninni væri fundurinn í raun að krefjast þess að biskup svipti sóknarprest forræði yfir stærstu kirkjudeildinni í prestakallinu. Á fundinum beindi Árni því til fundarmanna að tillaga að áskoruninni yrði ekki lögð fram en fylgdi því hins vegar ekki eftir. Greinilegt væri hvernig til fundarins var boðað, fylgismenn séra Óskars Hafsteins Óskarssonar, starfandi afleysingaprests á Selfossi, hefðu smalað á fundinn til að koma í gegn ályktuninni og því hefði verið þýðingarlaust að bera upp breytingartillögur, eða frávísun.

Þórður Árnason, sem lagði tillöguna fram, segir að líta megi svo á að farið sé fram á að sóknarpresturinn afsali sér völdum í kirkjunni. Hann sé þó ávallt yfirmaður starfsins. Þórður neitar því að sérstaklega hafi verið smalað á fundinn af sinni hálfu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert