Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari segir nokkrar skýringar á því að ekki hafi komið í ljós fyrr en nú að hann sé vanhæfur til að fara með ákæru á hendur 9 mótmælendum fyrir brot gegn Alþingi. „En aðalástæðan er sú að ég fer ekki með málið sjálfur heldur er það á höndum þess saksóknara sem undirritar ákæruna. Það gerir ákærandi hinsvegar í mínu umboði og það er því ég sem ber ábyrgðina. Mér hreinlega yfirsást þetta."
Valtýr hefur nú vikið sæti í málinu eftir að uppgötvaðist að meðal brotaþola sem eru með einkaréttarkröfu í málinu sé þingvörður sem sé hálfsystir eiginkonu Valtýs.
Aðspurður hvort ekki sé farið yfir hugsanleg tengsl sem þessi strax í upphafi málaferlisins segir Valtýr svo ekki endilega vera nema tengslin séu mjög augljós. „Þetta er bara atriði sem hefur yfirsést eins og oft vill gerast."
Mikil töf hefur nú þegar orðið á máli nímenninganna að sögn Valtýs, rannsókn lögreglu dróst og það kom því ekki inn á borð ríkissaksóknara fyrr en í nóvember á síðasta ári. Nú verður frekari töf, en saksóknari sem settur verður sérstaklega til að fara með málið mun nú hafa þriggja mánaða frest til að taka ákvörðun um að gefa út nýja ákæru. Verði það ekki gert innan þriggja mánaða fellur málið niður.