Vilja nýja álverskosningu í vor

Samtökin Sól í Straumi mótmæla hugmyndum um að kjósa á ný um stækkun álversins í Straumsvík um leið og þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin fer fram.

Sem kunnugt er höfnuðu Hafnfirðingar stækkun álversins í atkvæðagreiðslu fyrr á kjörtímabilinu en samtökin Sól í Straumi eru ósátt við hugmyndir bæjarstjóra um að kjósa um málið að nýju um leið og Icesave lögin fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Pétur Óskarsson, talsmaður samtakanna segir eðlilegra að kosið yrði um málið samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor, enda sé þá verið að kjósa um framtíðarskipan bæjarmála.

Hann segir ómögulegt að segja hvort forsendur hafi breyst frá því að Hafnfirðingar kusu síðast um stækkun álversins í Straumsvík, enda hafi Rio Tinto Alcan ekki lagt fram nýja umsókn um breytingu á deiliskipulagi á svæðinu.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir samþykktir bæjarins gera ráð fyrir að kosið sé um mál innan tveggja mánaða frá því að tekin hafi verið ákvörðun um að setja það í atkvæðagreiðslu. Til að kjósa um málið samhliða sveitarstjórnarkosningunum yrði því að fresta ákvörðun bæjarstjórnar fram í mars, en ákvörðunar bæjarstjórnar um hvort kosið verði um málið sé að vænta á næstu dögum.

Hann vísar því á bug að fyrirvarinn sé of stuttur og óttast ekki að málið fái ekki nægjanlega umræðu. Fyrir liggi vilji Rio Tinto Alcan um að halda sig við sömu deiliskipulagstillögu og síðast var kosið um og þá tillögu gjörþekki íbúar bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka