Vísar ásökunum um trúnaðarbrest á bug

mbl.is/Ásdís

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, vísar því á bug í mánudagspistli sínum að trúnaðarbrestur hafi orðið í samskiptum Kragasjúkrahúsanna við Landspítalann.

Gagnrýni forstjóra Kragasjúkrahúsanna kom fram í umfjöllun í Sunnudagsmogganum í kjölfar birtingar skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorni landsins.

„Í nefndu viðtali er talað um að LSH sé “undir hæl” heilbrigðisráðuneytisins. Ég get fullvissað ykkur um að ég er ekki með nein hælför á mér. Við höfum sett saman afar ábyrga fjárhagsáætlun fyrir árið 2010, í miklu og góðu samstarfi við starfsfólk LSH, og erum öll staðráðin í að láta hana standast.

Einnig kemur fram að LSH sé of stór og sé hátæknisjúkrahús. Hvort tveggja eru hártoganir. LSH er háskólasjúkrahús miklu fremur en hátæknisjúkrahús. LSH er sjúkrahús allra landsmanna sem kemur skýrt fram þegar alvarleg veikindi og slys henda hvar sem er á landinu. Loks er LSH nærsjúkrahús höfuðborgarsvæðisins, þéttbýlasta svæðis landsins. Að auki liggur fyrir að LSH er að minnka umfang starfsemi sinnar, ekki að stækka,“ skrifar Björn í pistlinum.

„Miðað við þá efnahagskreppu sem hér ríkir mætti ætla að vilji okkar allra hlyti að standa til þess að nýta þær hagræðingarleiðir sem bent er á í skýrslunni, ekki síst þar sem þær miða að því að viðhalda eða jafnvel bæta aðgengi að þjónustu og auka gæði og öryggi í þjónustu,“ skrifar Björn. 

„Samskipti og samvinna á milli LSH og Kragasjúkrahúsanna er mikil á hverjum degi og nær undantekningarlaust góð. Enginn af forstjórum kragasjúkrahúsanna hefur haft samband við mig eða framkvæmdastjórn LSH eftir birtingu fyrrgreindar skýrslu frá ráðuneytinu. Það hefur því ekki orðið neinn trúnaðarbrestur í samskiptum frá okkar sjónarhóli. Aðalatriði málsins er það að útreikningar um hagræðingu koma frá heilbrigðisráðuneytinu en ekki LSH. Ekkert í útreikningunum ætti reyndar að koma á óvart enda verið margreiknað í tíð a.m.k. þriggja heilbrigðisráðherra,“ skrifar Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka